Erlent

„Ég trúði því ekki að ég væri vakandi“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þyrlan brotlenti í hlíðum Røldalsfjalls síðdegis á sunnudag.
Þyrlan brotlenti í hlíðum Røldalsfjalls síðdegis á sunnudag. EPA/EFE
Hjónin sem fórust í þyrluslysinu í Røldal í Noregi á sunnudag hétu Ann-Cathrin Losvik og Jarle Hegerland. Þau voru á fimmtugsaldri og voru stödd á svæðinu við skíðaiðkun þegar þau lögðu í sína hinstu ferð. Norskir fjölmiðlar hafa eftir bróður Ann-Cathrin að fjölskyldan sé harmi slegin vegna slyssins.

Slysið varð síðdegis á sunnudag en þyrla hjónanna var á leið frá Røldal til Karmeyjar þegar hún brotlenti í hlíðum Røldalsfjalls. Flugið var ekki tilkynnt flugmálayfirvöldum og tók því lengri tíma að finna flak þyrlunnar en ella. Hjónin voru úrskurðuð látin skömmu eftir að björgunaraðilar komu að flakinu.

Vakinn með skelfilegum fréttum

Jarle Hegerland og Ann-Cathrin Losvik.Mynd/Facebook
Bróðir Ann-Cathrin, Lars Losvik, segir í samtali við norska dagblaðið VG að hann hafi verið vakinn aðfaranótt mánudags og látinn vita að hjónanna væri saknað.

„Ég trúði því ekki að ég væri vakandi, ég hélt að mig væri bara að dreyma,“ segir hann í samtali við VG. Um fjögurleytið sömu nótt hafi hann svo verið látinn vita af því að þyrlan hefði fundist og að hún hefði brotlent í fjallshlíðinni.

Hann segir systur sína hafa verið mikla íþróttamanneskju og afar góðhjartaða. Hann hafi jafnframt áttað sig á því hvað þau væru náin er þau sátu yfir móður sinni á líknardeild fyrir síðustu jól en systkinin hafa verið búsett hvort í sínu landinu í tuttugu ár.

Ann-Cathrin og Jarle voru mikið útivistarfólk og þá nutu þau þess að fljúga á þyrlunni sinni. Jarle lýsti því í viðtali við héraðsblaðið Haugesunds Avis í fyrra að hann hafi nýlega tekið þyrluflugmannspróf í Bandaríkjunum og sagðist þakklátur konu sinni fyrir að hjálpa honum að láta drauma sína rætast.

Samkvæmt frétt norska ríkisútvarpsins NRK lætur Ann-Cathrin eftir sig tvær dætur, þrettán og átján ára, og Hegerland einn fjórtán ára son. Hjónin áttu engin börn saman.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×