Í samtali við DV segir Halla Rut að aðstæður Rúmenana hafi verið sýndar með villandi hætti í umfjöllun Stöðvar 2 um málið. Þar hafi verið gefið til kynna að mennirnir ættu ekki pening til þess að greiða leigu eða kaupa nauðsynjavörur en DV birtir skjáskot af bankareikningi sem sagður er vera í eigu starfsmanns og sýnir hann 691 þúsund krónur.
Þá segir að starfsmennirnir hafi fengið mataraðstoð frá bæði ASÍ og Eflingu í kjölfar fréttaflutningsins sem þeir hafi notað til þess að kaupa mat sem þeir svo seldu til annarra Rúmena og birtir miðillinn myndband því til stuðnings.
Ekki fótur fyrir fullyrðingunum
Í yfirlýsingu Eflingar segir að félagið taki ásökunum um misnotkun fjármuna félagsins alvarlega. Þau hafi grandskoðað það sem fram komi í fréttinni með túlki og segja engan fót vera fyrir þeim fullyrðingum sem fram komi í fréttinni. Fullyrðingar um hvernig mataraðstoðinni hafi verið ráðstafað séu rangar og myndbandið sem um ræðir renni engum stoðum undir fréttaflutninginn.Þá gagnrýnir Efling að nafngreindur maður sé sakaður um svik í fréttaflutningi DV og að upplýsingar af bankareikningi hans hafi verið gerðar opinberar.
„Nafngreindur maður er vændur um lygar og svik í frétt og fyrirsögn, auk þess sem upplýsingar af bankabók hans frá því í fyrra eru opinberaðar. Hann fékk ekki tækifæri til að svara fyrir þessar ásakanir á hendur sér. Við höfum rætt við hann og fengið að skoða frá honum gögn og bankafærslur. Frásögn hans kemur engan veginn heim og saman við fréttaflutning DV,“ segir í yfirlýsingunni.
Yfirlýsingu Eflingar má lesa hér að neðan.