Í samtali við Vísi segir Björn að konan hafi svo kallað á hann eftir að þau mættust svo hann stoppaði. Hann segir konuna hafa tekið í myndavélina hans og reynt að hrifsa hana af honum. Þegar Björn neitaði að sleppa myndavélinni tók konan upp dúkahníf.

„Mér brá ekkert smá,“ segir Björn. „Ég var bara að koma úr Krónunni með mjólkina mína.“ Dóttir Björns stóð þar rétt hjá og sá ránið.
Björn elti konuna í um 300 metra fjarlægð og hringdi á Neyðarlínuna. Skömmu seinna bar lögregluþjóna að garði og var konan handtekin.
Þóra Jónasdóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir að kona hafi verið handtekin fyrir að beita eggvopni við rán og hún sé í haldi lögreglu. Konan verður yfirheyrð í fyrramálið.
Björn segir konuna hafa stöðvað og talað við ungan mann og sá hafi síðan hlaupið frá henni og virst hræddur. Lögreglan hefur þó ekki vitneskju um hvað hafi átt sér stað þar.