Innlent

„Tel nægja að menn séu að fremja í­trekuð af­brot“

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Snorri Másson, varaformaður Miðflokksins.
Snorri Másson, varaformaður Miðflokksins. Vísir/Vilhelm

Frumvarp um afturköllun verndar brotamanna er á dagskrá Alþingis í dag og líklegt má telja að frumvarpið fljúgi í gegnum þingið. Þingmaður Miðflokksins vill þó að gengið verði lengra þannig að hægt verði að svipta þá vernd sem framið hafa ítrekuð brot, þrátt fyrir að þau teljist ekki alvarleg.

Um er að ræða aðra umræðu frumvarpsins eftir meðferð þess í allsherjar- og menntamálanefnd. Í því er lagt til að heimilt sé að afturkalla alþjóðlega vernd flóttamanns ef gildar ástæður eru taldar til þess að álíta hann hættulegan öryggi ríkisins, að einstaklingur hafi hlotið dóm fyrir alvarlegt afbrot eða hafi verið dæmdur fyrir ítrekuð afbrot sem ógni almannaöryggi eða allsherjarreglu.

Rofinn samfélagssáttmáli

Snorri Másson, þingmaður og fulltrúi Miðflokksins í allsherjar- og menntamálanefnd, lagði til breytingar á frumvarpinu í minnihlutaáliti og vill að gengið verði lengra.

„Það þarf ekkert að taka sérstaklega fram, eða réttlæta breytingarnar með því að þetta ógni allsherjarreglu eða almannaöryggi. Ég tel einfaldlega nægja að menn séu að fremja ítrekuð afbrot til þess að það sé tekið til skoðunar hvort þeir séu ekki búnir að brjóta þannig af sér að þeir missi verndina,“ segir Snorri.

„Mín persónulega skoðun er einfaldlega sú að þá sértu búinn að rjúfa þann samfélagssáttmála sem við komum á með því að veita mönnum hérna alþjóðlega vernd.“

Vinna við frumvarpið var hafin á sínum tíma í miðri umræðu um mál Mohamad Kourani, sem hlotið hefur fjölda dóma og meðal annars fyrir alvarleg ofbeldisbrot. Snorri telur að ákvæðið muni í núverandi mynd aðeins eiga við um örfáa einstaklinga. Fleiri brot ættu að vera undir.

„Til dæmis brot gegn friðhelgi einstaklinga, nálgunarbann, heimilisofbeldi, skjalafals, svik gagnvart stjórnvöldum. Þetta er eitthvað sem ég nefni í minni tillögu að er í raun og veru ekki að falla inn í brotaflokkana sem þau eru að taka þarna.“

Þrátt fyrir að leggja til breytingar mun Snorri sætta sig við frumvarpið í núverandi mynd og greiða atkvæði með því. Hann hefur þó áhyggjur af því að afturköllun verndar sé ekki endanleg lausn þar sem erfitt geti reynst að vísa fólki úr landi. Hann hvetur stjórnvöld til að beita sér fyrir endurskoðun alþjóðasamninga.

„Í mjög mörgum tilvikum má enn ekki senda þau til baka, vegna þess að hvert ætlarðu að senda þau? Samkvæmt þessum alþjóðasáttmálum megum við ekki senda þau á óöruggan stað. Þannig að þetta er í raun og veru líklegt til þess að valda bara frekar flækjum í kerfinu, þótt það sé alveg eðlilegt að við höfum þessa heimild.“

Þverpólitísk sátt

Telja má líklegt að frumvarpið fljúgi í gegnum þingið. Jens Gerðar Helgason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lýsti meðal annars eftir því í ræðustól á Alþingi í gær. Vísaði hann til þess að formaður Viðreisnar hafi rétt áður en þingfundum var frestað fyrir jól reynt að koma því á dagskrá, þrátt fyrir að búið væri að semja um afgreiðslu mála, líkt og Vísir greindi frá.

Jens Garðar sagði í ræðu sinni í gær að þverpólitískur vilji væri til staðar. Undarlegt væri að frumvarpið hafi ekki ratað á dagskrá, á sama tíma og búið væri að bera fram tuttugu og tvö önnur mál eftir að þingfundir hófust á ný. „Hvar er útlendingafrumvarpið sem var svo lífsnauðsynlegt að klára fyrir jólin en sést ekki enn glitta í núna?“ sagði Jens Garðar. Líkt og áður segir er málið nú komið á dagskrá og verður rætt á Alþingi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×