Fréttastofan greindi frá því fyrir helgi að opnun útboðs vegna fyrirhugaðra kaupa á tuttugu og fimm sjúkrabílum hafi verið frestað enn og aftur vegna deilu Heilbrigðisráðuneytisins og Rauða krossins á Ísland um yfirtöku ríkisins á rekstrinum. Var þetta í þriðja sinn sem útboðinu er frestað og er ástæðan sú að ríkið hefur ekki aðgang að sjúkrabílasjóði sem Rauði krossinn á Íslandi á og rekur. Samkvæmt heimildum fréttastofu eru þar miklir fjármunir, það miklir að hægt væri að fara langleiðina í að endurnýja sjúkrabílaflotann á Íslandi.
Sjá einnig: Nóg fé til en ekki hægt að endurnýja sjúkrabíla vegna deilu
Engin lausn í deilu þessara aðila virðist vera í sjónmáli þar sem um er langt samningssamband milli aðila og flókna yfirfærslu á mikilvægri þjónustu sé að ræða og að tímafrekt hafi verið að vinna úr stöðunni frá því að viðræður hófust í mars í fyrra.
Sjá einnig: Fresta opnun útboðs vegna kaupa á sjúkrabílum
Vegna deilunnar var ráðgjafafyrirtækið Capacent fengið til þess að taka saman greinargerð um Sjúkrabílasjóð og yfirtöku ríkisins á rekstrinum. Greinargerðinni var skilað í síðustu viku og eftir að aðilar málsins höfðu skoðað skýrsluna urðu þeir ásáttir um að ræða ekki efni hennar opinberlega að svo stöddu.

Samkvæmt upplýsingum telur sjúkrabílaflotinn 84 bíla. Í viðmiðurnartölum um aldur og akstur þeirra þyrfti að endurnýja yfir helming flotans á þessu ári, eða um 47 bifreiðar. Dæmum um bilanir á þessum mikilvægu flutningstækjum hefur fjölgað og ekki eru til varabílar sem taka við þurfi aðrir að verkstæðisþjónustu að halda.
Sjá einnig: Ekki líkur á endurnýjun sjúkrabíla fyrr en í fyrsta lagi 2020
Hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands eru sextán sjúkrabílar á starfssvæðinu, fjórir þeirra 26 ára gamlir. Dæmi eru um að alvarlegar bilanir hafi átt sér stað í sjúkrabílum í miðjum forgangsakstri.
„Já því miður þá hafa bílar verið að bila og verið óökuhæfir með sjúkling um borð og við höfum orðið að senda aðra sjúkrabíla á móti til þess að ná í sjúklinganna,“ segir Gísli Björnsson, yfirmaður sjúkraflutninga á Suðurlandi.

„Ef að þetta dregst áfram í eitt ár í viðbót þá eru flestir bílar okkar komnir á þriðja hundrað þúsund kílómetra og alls ekki traustvekjandi í þessa,“ segir Gísli.
Sjá einnig: Rekstur sjúkrabíla á Íslandi í uppnámi
Gísli hefur áhyggjur af þeim skjólstæðingum sem þurfa á þjónustunni að halda og bætir við að það sé og ömurlegt að hans mannskapur þurfi að vinna á tækjum sem að er ekki treystandi að komast á leiðarenda með fársjúkt eða slasað fólk.
