Skoðun

Kjóll ársins 2019

Þorbjörg Gunnlaugsdóttir skrifar
Fyrir okkur sem erum ekki að vinna til verðlauna alla daga er eitthvað við það að fylgjast með öðrum við þá iðju. Hvort sem það eru Ólympíuleikar, Óskar eða annað er sigurinn oftast sætur. Það er gaman að sjá fólk sigra salinn. Ég hef horft svo oft á listdans Torvill og Dean við Bolero að mér finnst ég eiga dálítið í Ólympíugullinu þeirra. Gullið sem þau unnu á Vetrarólympíuleikunum í Sarajevo 1984 eins og hvert mannsbarn þekkir. Og eins og við munum líka voru þau hreint ekkert síðri í Lillehammer 1994.

Þetta snýst um einhverja kemistríu. Kannski segir það sögu um bíómyndirnar að Óskarinn virðist snúast meira um sýninguna en sigrana. Daginn eftir Óskarinn fjallar uppgjörið um kjól ársins. Lærðar greinar birtast um sigra, ósigra og feilnótur í klæðavali. Þetta hefur heimsbyggðin stúderað og mér finnst ég geta lesið að Helen Mirren hafi unnið í ár sem og skartið hennar Lady Gaga. En stóra málið eftir Óskarinn er vitaskuld kemistrían á milli Lady Gaga og Bradley Cooper. Var söngurinn sannur eða eru þau heimsins bestu leikarar? Getur blik í auga logið? Ég hef, eins og aðrir, myndað mér ígrundaða skoðun á málinu.

Fyrir okkur sem erum ekki að vinna til verðlauna alla daga er sætt að fylgjast með sigri, hvort sem hann er lítill eða stór. Að aflokinni Óskarsumræðu um kjóla og kemistríu stígum við inn í annað tímabil söngvakeppni. Sem trúr stuðningsmaður Íslands kann ég núorðið ekki síður að meta undankeppnina en stóru keppnina. Þá erum við bæði með og vinnum. Íslenska lagið sigrar salinn og við vinnum öll lítinn sigur í lok kvölds.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×