Réttarhöldin yfir tólf leiðtogum katalónsku sjálfstæðishreyfingarinnar héldu áfram í hæstarétti Spánar í Madríd í gær. Skýrsla var tekin af tveimur síðustu hinna ákærðu. Annars vegar Carme Forcadell, fyrrverandi þingforseta, og hins vegar Jordi Cuixart, formanni samtakanna Omnium Cultural. Þau eru bæði sökuð um uppreisn og uppreisnaráróður og eiga yfir höfði sér áratugi í fangelsi.
Cuixart, sem hefur verið í gæsluvarðhaldi í tæpt eitt og hálft ár, sagði það ekkert forgangsmál að sleppa úr fangelsi. „Heldur vil ég úthrópa mannréttindabrot í Katalóníu og á Spáni. Það er einnig í forgangi að leysa úr þessari deilu,“ sagði Katalóninn og bætti því við að hann væri pólitískur fangi, í haldi vegna skoðana sinna líkt og aðrir Katalónar hafa haldið fram.
Forcadell hafnaði því alfarið að hún hefði misnotað vald sitt sem þingforseti í þágu sjálfstæðishreyfingarinnar. Þá sagðist hún jafnframt fordæma minnihlutahópsvæðingu Katalóna, brot gegn réttindum þjóðarinnar og eigin meðferð í aðdraganda réttarhaldanna.
Réttarhöldin halda áfram í dag. Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar þegar sjálfstæðisatkvæðagreiðslan fór fram í október 2017, mætir fyrir dóminn. Það gerir Soraya Sáenz de Santamaría, þáverandi varaforsætisráðherra, sömuleiðis.
