Erlent

Unglingur lést úr raflosti í lestargöngum í Ósló

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Haft er eftir lögreglu að ekki sé vitað af hverju unglingarnir voru inni í göngunum. Mynd tengist fréttinni ekki beint.
Haft er eftir lögreglu að ekki sé vitað af hverju unglingarnir voru inni í göngunum. Mynd tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Getty
Unglingur lést í miðborg Óslóar í Noregi síðdegis í dag eftir að hafa fengið raflost inni í lestargöngum í borginni. Tveir unglingar til viðbótar voru fluttir alvarlega slasaðir á sjúkrahús, að því er fram kemur í frétt norska ríkisútvarpsins NRK.

Óhappið varð í grennd við Filipstad í Ósló á fimmta tímanum í dag að staðartíma. Hinn látni var fyrst sagður alvarlega slasaður en var svo úrskurðaður látinn í kvöld. Meiðsl hinna tveggja eru einnig sögð af völdum raflosts, sem þeir eru sagðir hafa fengið úr háspennubúnaði inni í göngunum. Ekkert hefur verið gefið upp um aldur þremenningina, utan þess að þeir eru allir á táningsaldri.

NRK hefur eftir lögreglumanninum Tore Barstad, sem stýrir rannsókn málsins, að ekki sé enn vitað af hverju unglingarnir voru inni í lestargöngunum í dag. Viðbragðsaðilar hafi fyrst sótt unglingana tvo sem slösuðust og þeir hafi látið vita af þriðja einstaklingnum, sem þá var enn inni í göngunum.

Þá er haft eftir fjölmiðlafulltrúa norska lestarkerfisins að unglingarnir hafi verið á svæði sem lokað er almennri umferð. Þar sé að finna háspennubúnað með allt að 15 þúsund volta spennu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×