Þetta sagði Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, í mikilli eldræðu sem hún hélt á Austurvelli dag þar sem fjöldi fólks kom saman Hungurgöngunni.
Í ræðunni sinni varpaði Þuríður Harpa ljósi á þá alvarlegu stöðu sem fátækt fólk og öryrkjar búa við á Íslandi og sagði að frá þeirra sjónarhorni væri ísland svo sannarlega ekki land tækifæranna og velsældar. Fátækt sé þjóðarskömm í ríku landi.
Þuríður hafnar þeirri orðræðu sem hefur verið viðhöfð í tengslum við yfirstandandi kjaraviðræður að ef þeir tekjulægstu fái leiðréttingu fari allt samfélagið á hliðina. Hún segir að það sé hvorki frekja né græðgi að vilja fá að lifa af á laununum sínum. Það sé sanngjörn og eðlileg krafa.
Þuríður segir að fátækt fólk hafi beðið í langan tíma eftir leiðréttingu. „Við höfum sýnt skilning á því að þjóðarbúið þurfi að rétta við eftir hrun – eftir að hinir ofurríki og skynsömu settu Ísland nánast á hausinn með yfirgengilegri græðgi.“
Fyrir gjörðir þessa einstaklinga hafi almenningur þurft að borga ýmist með heimilum sínum eða heilsu sinni.
„Það hefur verið logið að þjóðinni, logið að fátæku fólki sem enn á að þreyta sína hungurgöngu með eilífa von í brjósti. Fátæku fólki sem enn er gert að bíða eftir réttlæti.“

