Banaslys varð í Hafnarfirði síðdegis í gær þegar knapi slasaðist við útreiðar í hestahúshverfi Hestamannafélagsins Sörla. Mun hesturinn, sem maðurinn var á, hafa fælst og rokið af stað sem varð til þess að maðurinn kastaðist af baki og hafnaði á staur nærri hesthúsahverfinu að Hlíðarþúfum.
Slasaðist maðurinn, sem var á sextugsaldri, alvarlega við það og lést af áverkum sínum.
Andri Már Ingólfsson, formaður Sörla, segir meðlimi í félaginu slegna yfir þessum fregnum eins og gefur að skilja.
Um komandi helgi fara fram vetrarleikar þar sem félagsmenn í Sörla keppa sín á milli en Andri Már segir að leikarnir muni fara fram og þar geti fólk hist og rætt málin. Hins vegar er búið að aflýsa skemmtikvöldi sem átti að vera á laugardagskvöldinu vegna þessa harmleiks.

