Herkví Ísraela um Gasasvæðið og ákvörðun þeirra um að hundsa tilmæli rannsakenda mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna er áhyggjuefni. Þetta sagði Michelle Bachelet, mannréttindastjóri SÞ, þegar hún ávarpaði ráðið í gær.
Rannsakendur greindu í síðustu viku frá því að Ísraelar hefðu mögulega gerst sekir um stríðsglæpi í aðgerðum sínum gegn palestínskum mótmælendum á landamærunum að Gasasvæðinu. Skýrsla rannsakenda snerist um andlát 189 Palestínumanna.
Að þeirri niðurstöðu var komist að trúlega hefðu ísraelskar leyniskyttur skotið á börn, sjúkraliða og blaðamenn jafnvel þrátt fyrir að skytturnar vissu að fólkið tilheyrði þessum hópum. Bachelet varaði einnig við vaxandi ójöfnuði í heiminum, hatursorðræðu og útlendingaandúð. Þá lýsti hún yfir áhyggjum sínum af því að víða mæti of beldi þeim borgurum sem mótmæli ójöfnuði.
„Í Súdan, undanfarna mánuði, höfum við horft upp á of beldi gegn fólki sem mótmælir erfiðum efnahagslegum aðstæðum,“ sagði mannréttindastjórinn í ávarpi sínu
