Stúlkunafnið Zoe var samþykkt af mannanafnanefnd í lok síðasta mánaðar eftir að nefndin hafnaði nafninu fyrir þremur árum síðan. Í úrskurði mannanafnanefndar segir að nafnið hafi unnið sér hefð í íslensku og því var samþykkt að færa það á mannanafnaskrá.
Jafnframt segir í úrskurðinum að samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands bera sjö konur nafnið Zoe og uppfyllir það skilyrði vinnulagsreglna um hefð. Þá hefur mannanafnanefnd upplýsingar um að íslensk kona hafi verið skírð Zoe árið 1929.
Í fyrri úrskurði mannanafnanefndar frá árinu 2016 kom fram að nafnið væri hvorki ritað eftir almennum ritreglum íslensk máls þar sem bókstafurinn z væri ekki notaður í íslenskri stafsetningu né að ritháttur nafnsins hefði öðlast hefð hér á landi.
Foreldrar stúlku sem höfðu sótt um skráningu á nafninu fóru fram á ógildingu úrskurðarins og var þeirri kröfu hafnað í héraði en Hæstiréttur sneri þeirri ákvörðun í desember á síðasta ári á þeim grundvelli að afnám bókstafsins z hafði ekki náð til mannanafna. Hæstiréttur tók þó ekki afstöðu til þess hvort stúlkan mætti bera nafnið.
