Erlent

Ísraelar sakaðir um að svipta Palestínumenn drykkjarvatni

Kjartan Kjartansson skrifar
Palestínskur drengur fær sér vatn.
Palestínskur drengur fær sér vatn. Vísir/EPA
Sérstakur eftirlitsmaður Sameinuðu þjóðanna segir að ísraelsk stjórnvöld svipti Palestínumenn aðgangi að drykkjarvatni og stundi rányrkju á jörðum þeirra. Útþenslustefna ísraelsku ríkisstjórnarinnar á Vesturbakkanum haldi áfram á fullum dampi.

Í ávarpi í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í Genf sagði Michael Lynk, sérstakur erindreki SÞ um mannréttinda á landsvæðum Palestínumanna, að á bilinu tuttugu til tuttugu og fimm þúsund landtökumenn settust að á palestínsku landi á hverju ári. Sameinuðu þjóðirnar og fjöldi ríkja telja landtöku Ísraelsmanna ólöglega.

Lynk sagði að gengið hefði verið á vatnsbirgðir Palestínumanna og auðlindir. Vatnsskortur stuðlaði nú að heilbrigðisvandamálum hjá tveimur milljónum Palestínumanna á Gasaströndinni. Benti hann á að ísraelsk námufyrirtæki ynnu um sautján milljónir tonna af steini úr jörðum Palestínumanna á ári þrátt fyrir að alþjóðalög banni herveldum að nýta auðlindir hersetinna svæða.

„Dauðahafið og ofgnótt náttúrulegra auðlinda þar, sem liggur að hluta innan hernuminna landsvæða Palestínumanna, mega Palestínumenn ekki nýta á sama tíma og ísraelsk fyrirtæki fá að nýta steinefnin í því sem virðist rányrkja,“ sagði Lynk.

Sendinefnd Ísraela var ekki viðstödd ávarp Lynk og vísuðu til meintrar hlutdrægni gegn þeim. Sakaði hún Lynk um að vera þekktur málsvari Palestínumanna.

„Í nýjustu farsakenndu skýrslu hans nær herra Lynk nýjum lægðum og sakar ríki gyðinga um þjófnað,“ sagði nefndin um ávarpið í yfirlýsingu til Reuters-fréttastofunnar.

Ibrahim Khraishi, sendiherra Palestínumanna, hvatti Ísraela aftur á móti til þess að láta af rányrkju og það sem hann kallaði „þjófnað“ á landsvæðum Palestínumanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×