Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, fær biðlaun sem ráðherra í allt að hálft ár eftir að hún sagði af sér á miðvikudag. Það þýðir að hún á rétt á fullum launum ráðherra sem einnig situr á þingi upp á rúmar 1,8 milljónir krónur á mánuði.
Samkvæmt lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað á ráðherra sem setið hefur samfellt í ár eða meira rétt á biðlaunum í sex mánuði. Ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar fagnaði eins árs afmæli sínu í lok nóvember síðastliðins.
Sigríður mun sitja áfram sem þingmaður og mun því fá þingfararkaup áfram sem nemur rúmum 1.100 þúsund krónum á mánuði. Ráðherralaun eru samsett úr þingfararkaupi og svo ráðherrahlut upp á rúmar 725 þúsund krónur sem Sigríður í þessu tilfelli á rétt á í hálft ár til viðbótar.
