Íslandsdeild Amnesty International fagnar frumkvæði og framgöngu Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Þann 7. mars sl. flutti fastafulltrúi Íslands sameiginlegt ávarp 36 ríkja í ráðinu þar sem mannréttindabrot Sádi-Arabíu voru fordæmd.
Harald Asperlund, fastafulltrúi Íslands, lýsti verulegum áhyggjum af gerræðislegum handtökum og varðhaldi á mannréttindafrömuðum ekki síst kvennréttindasinnum. Að sögn Amnesty hefur hópur baráttukvenna verið í haldi án ákæru síðan í maí 2018 og a.m.k. tíu af þeim, verið pyndaðar, kynferðislega misnotaðar og sætt annarri illri meðferð.Þá hafa þær jafnframt verið haldið í einangrun og hvorki haft aðgang á lögfræðingum né fjölskyldum sínum.
Í fréttatilkynningu frá Íslandsdeild Amnesty International segir að framganga Íslands sýni að stærð ríkja skipti ekki máli til þess að hafa áhrif í mannréttindaráðinu heldur hugsjónir og þor.
„Það hefur verið brotið blað í sögu mannréttindaráðsins, þar sem eitt af hinum stóru voldugu ríkjum hefur nú fengið á sig gagnrýni fyrir þau grófu mannréttindabrot sem þar eru framin. Við vonum að þetta leiði til þess að ríki sem sitja í mannréttindaráðinu veigri sér ekki við að sameinast um gagnrýni á önnur voldug ríki, þar sem er vitað að gróf mannréttindabrot fá að þrífast,“ segir Anna Lúðvíksdóttir framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty International.
Enn fremur segir Heba Morayef, svæðisstjóri Amnesty International í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku:
„Þetta frumkvæði mannréttindaráðsins býður upp á sjaldgæft tækifæri fyrir ríki til að taka skýra opinbera afstöðu gegn þeim fjölda mannréttindabrota sem stjórnvöld Sádi-Arabíu hefur framið. Ríki sem þegja þunnu hljóði á þessu þýðingarmikla augnabliki senda hættuleg skilaboð til Sádi-Arabíu um að stjórnvöld megi halda áfram að fremja alvarleg mannréttindabrot án þess að vera dregin til ábyrgðar.“
