Slóvenska undrabarnið Luka Doncic var með þrefalda tvennu þegar Dallas Mavericks vann öruggan sigur á Golden State Warriors, 91-126, á útivelli í NBA-deildinni í nótt.
Doncic skoraði 23 stig, tók ellefu fráköst og gaf tíu stoðsendingar fyrir Dallas sem á ekki lengur möguleika á að komast í úrslitakeppnina. Kevin Durant skoraði 25 stig fyrir meistarana sem eru í 2. sæti Vesturdeildarinnar.
Boston Celtics tapaði þriðja leiknum í röð þegar liðið beið lægri hlut fyrir Charlotte Hornets á útivelli, 124-117.
Kyrie Irving skoraði 31 stig fyrir Boston en það dugði ekki til. Liðið er í 5. sæti Austurdeildarinnar. Kemba Walker átti stórleik fyrir Charlotte en hann skoraði 36 stig, tók ellefu fráköst og gaf níu stoðsendingar.
Portland Trail Blazers vann Detroit Pistons, 117-112, á heimavelli. Þetta var þriðji sigur liðsins í röð. Damian Lillard skoraði 28 stig og gaf niu stoðsendingar hjá Portland.
Úrslitin í nótt:
Charlotte 124-117 Boston
Washington 108-113 Miami
Atlanta 129-127 Philadelphia
Chicago 83-114 Utah
Memphis 99-112 Minnesota
Golden State 91-126 Dallas
Portland 117-112 Detroit
Sacramento 112-103 Phoenix

