Erlent

Segir guð mögulega hafa sent Trump til að bjarga Ísrael

Samúel Karl Ólason skrifar
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AP/Bilal Hussein
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanan, segir mögulegt að guð hafi sent Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, til að bjarga Ísrael frá Íran. Þetta sagði ráðherrann í viðtali við Christian Broadcasting Network sem tekið var upp í Ísrael.

Í viðtalinu var Pompeo sérstaklega spurður að því hvort Trump hefði á einhvern hátt verið sendur af guði til að bjarga Ísrael frá Íran.

„Sem kristinn maður, trúi ég svo sannarlega að það sé mögulegt,“ sagði Pompeo samkvæmt BBC. „Ég hef fulla trú á því að guð sé hér að störfum.“ Þá lofaði Pompeo einnig Trump fyrir að tryggja áframhaldandi tilvist Ísrael.



Trump hefur farið hart fram gegn Íran frá því hann tók við embætti forseta. Hann hefur meðal annars slitið Bandaríkin frá kjarnorkusamkomulaginu svokallaða, sem var ætlað að koma í veg fyrir að Íranir kæmu upp kjarnorkuvopnum. Hann sagði þann samning vera hræðilega einhliða. Hann hefur ítrekað gagnrýnt Íran harðlega og jafnvel hvatt íbúa til að velta stjórnvöldum landsins úr sessi.

Nú í gær tilkynnti Trump að Bandaríkin myndu viðurkenna yfirráð Ísraels yfir Gólanhæðum. Ísraelar tóku Gólanhæðir af Sýrlendingum í sex daga stríðinu árið 1967.

 


Tengdar fréttir

Varaði þingmenn við að fylgja Trump í blindni

Michael Cohen, fyrrverandi lögmaður Donald Trump Bandaríkjaforseta, sakaði hann um að hafa brotið lög sem forseti á maraþonfundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings sem stóð í rúma sjö tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×