Þetta kemur fram í svari frá menntamálaráðuneytinu við fyrirspurn Vísis. „Frumvarpið hefur tekið ákveðnum breytingum frá því að það var lagt fram í Samráðsgátt stjórnvalda í lok janúar enda bárust þá ýmsar gagnlegar umsagnir.“
En, þegar spurt var nánar um þær breytingar, þá hvort til standi að bæta í og þá sé í því tilliti litið til endurgreiðslu á tryggingargjaldi, verður fátt um svör.
„Mennta- og menningarmálaráðherra mun kynna þær breytingar þegar hún mælir fyrir frumvarpinu.“
Fyrirhuguð framlög til lítils
Samkvæmt heimildum Vísis hefur fjölmiðlafrumvarpið verið að velkjast á milli stjórnarflokkanna nú um skeið en víst er að málið er snúið. Þannig liggur fyrir álit forsvarsmanna stærri miðla á markaði, að 50 milljóna króna þak til stuðnings sé varla upp í nös á ketti.
Að gefa eftir tryggingjargjaldið
Þannig hefur komið fram sú hugmynd að til viðbótar verði fjölmiðlafyrirtækjum veitt einskonar undanþága frá tryggingargjaldi. Víst er að það þarf að útfæra því tryggingargjaldið, sem er yn sjö prósent, hefur hingað til verið talið heilagt enda liggur það til grundvallar atvinnuleysistryggingarsjóði.
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur verið gagnrýninn á frumvarpið, meðal annars á þeim forsendum að það stangist á við prinsipp um hlutverk fjölmiðla í samfélaginu að þau séu upp á náð og miskunn þess kerfis komin sem þeim ber að veita aðhald. En, þá kemur Ríkisútvarpið til skjalanna og skekkir þau prinsipp í sjálfu sér. Óli Björn segir, í samtali við Vísi, það vissulega svo að vera RÚV á markaði setji öll prinsipp í uppnám.
Þá er það svo að yfirleitt sé reynt að búa svo um hnúta á Alþingi að stjórnarfrumvarp komi ekki fram eftir lok marsmánaðar. Af ýmsum ástæðum. En, það er þó hægt með en samstaða milli þingflokka stjórnarflokkanna þyrfti að liggja fyrir. Óli Björn segist ekki vilja tjá sig um það hvort til standi að gefa eftir tryggingargjald til fjölmiðlafyrirtækja, því verði Lilja Dögg Alfreðsdóttir að svara.