Innlent

Dómur staðfestur fyrir manndráp af gáleysi við Jökulsárlón

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá Jökulsárlóni þar sem slysið varð í ágúst 2015.
Frá Jökulsárlóni þar sem slysið varð í ágúst 2015. Vísir/Vilhelm
Landsréttur hefur staðfest tvegja mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm yfir karlmanni á þrítugsaldri fyrir manndráp af gáleysi í Jökulsárlóni sumarið 2015. Dómur var kveðinn upp í dag en maðurinn var skipstjóri á hjólabátnum Jaka sem bakkað var yfir kanadíska konu með þeim afleiðingum að konan lést.

Skipstjórinn var sviptur réttindum sínum í hálft ár og dæmdur til að greiða málskostnað upp á um tvær milljónir króna héraði. Því til viðbótar bættust við 1,5 milljónir króna í áfrýjunarkostnað auk málsvarnarlaun verjanda síns.

Í ákærunni var skipstjórinn sakaður um að hafa ekki sýnt nægjanlega aðgæslu þannig að báturinn hafnaði á konunni með þeim afleiðingum að hún hlaut fjöláverka og lést nær samstundis. Málið var tvö ár í rannsókn hjá lögreglu áður en ákæra var gefin út sumarið 2015. Hálfu ári síðar hefur verið kveðinn upp dómur.

Þegar slysið átti sér stað fylgdist fjölskyldan með þyrlu lenda á malarsvæði fyrir aftan bátinn. Það var þá sem skipstjórinn bakkaði, án þess að líta aftur fyrir sig.

Í skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa kom fram að skipstjórinn hefði verið réttindalaus og alfarið treyst á aðstoðarmann sem gaf honum merki um að í lagi væri að bakka. Þar kemur einnig fram að fólkið hefði ekki heyrt í bátnum þar sem hávaðinn frá þyrlunni yfirgnæfði hljóðið.


Tengdar fréttir

Skipstjóri hjólabátsins segist ekki hafa getað sýnt meiri aðgát

Skipstjóri hjólabáts, sem varð valdur að dauða konu við Jökulsárlón, og starfsmaður á malarplani við lónið segja ekkert óeðlilegt við það hvernig bátnum var ekið. Aðalmeðferð í málinu heldur áfram í dag en maðurinn er ákærður fyrir manndráp af gáleysi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×