Innlent

CrossFit-kappar reikna með 2000 ferðamönnum og 300 milljónum króna í kerfið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Skipuleggjendur reikna með fimm þúsund áhorfendum í Laugardalshöll þegar mótið fer fram.
Skipuleggjendur reikna með fimm þúsund áhorfendum í Laugardalshöll þegar mótið fer fram. Fréttablaðið/Anton Brink
Borgarráð samþykkti á fundi sínum í gær að veita níu milljóna styrk til aðstandenda Reykjavík CrossFit Championship sem fram fer í Laugardalshöll fyrstu helgina í maí. Sigurvegarar í keppninni tryggja sér þátttökurétt á Heimsleikunum í sumar.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri lagði fram tillöguna en forsvarsmenn keppninnar segja í umsókn sinni gera ráð fyrir um 2200 aðilum til landsins í tengslum við keppnina. Miklu myndi muna um niðurfellingu á húsaleigu Laugardalshallar en gífurlegur kostnaður fari í að breyta Laugardalshöll úr frjálsíþróttahöll í CrossFit keppnissvæði með plássi fyrir fimm þúsund áhorfendur.

Styrkur borgarinnar fer úr liðnum ófyrirséður kostnaður og fer beint til Íþrótta- og sýningarhallarinnar.

Umsókninni fylgja „léttir útreikningar“ á hagrænum áhrifum þess að halda keppnina hér á landi. Hjörtur Grétarsson, sem sendir umsóknina fyrir hönd aðstandenda, reiknar með að verðmæti þess að fá 2250 manns til landsins, 2000 ferðamenn og 250 keppendur og þjálfara, nemi um 300 milljónum króna.

Þar sé miðað við að meðallengd ferðalagsins sé fimm dagar. Er tekið fram að helstu viðmiðunartölur við útreikninga séu í lægri kantinum.

Til stendur að halda keppnina hér á landi árlega næstu þrjú ár hið minnsta. Takist vel til er von á framlengingu á samningi um fimm ár.

Fyrir liggur að Anníe Mist Þórisdóttir verður ekki á meðal keppenda á mótinu. Vonir standa til þess að aðrar crossfit kempur Íslands verði á meðal keppenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×