Sveinn Andri Sveinsson verður áfram annar tveggja skiptastjóra í þrotabúi flugfélagsins WOW air. Forsvarsmenn Arion banka, stærsta kröfuhafans í þrotabú Arion banka, kröfðust þess á fundi með Símoni Sigvaldasyni, dómstjóra í Héraðsdómi Reykjavíkur, að Sveinn Andri yrði látinn víkja.
Töldu þeir Svein Andra vanhæfan vegna ósættis við bankann í öðru máli eins og Mannlíf greindi fyrst frá.
RÚV greindi svo frá því í morgun að reynt hefði verið að ná sáttum á fundinum í gær. Um var að ræða aðfinnslufund þar sem reynt var að miðla málum, að sögn Símons. Ekki fékkst niðurstaða sem allir voru sáttir við og niðurstaðan sú að Sveinn Andri yrði áfram skiptastjóri.
Haraldur Guðni Einarsson, upplýsingafulltrúi Arion banka, segir í samtali við Vísi að bankinn muni krefjast úrskurðar í málinu. Símon skipaði sjálfur Svein Andra sem skiptastjóra. Símon segir í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis að krefjist bankinn formlega úrskurðar, sem ekki hafi enn verið gert, verði erindið að sérstöku máli.
Málið fari svo í venjulegan farveg sem endi með úrskurði.
Ósætti Arion banka við Svein Andra snýr að störfum hans sem lögmaður fyrirtækjanna Datacell og Sunshine Press Productions. Fyrirtækin hafa eldað grátt silfur saman með greiðslukortafyrirtækinu Valitor undanfarin ár, síðan 2011. Valitor er dótturfélag Arion banka.
