Innlent

Verkföllum aflýst

Birgir Olgeirsson og Sylvía Hall skrifa
Frá fundi deiluaðila í Karphúsinu fyrir skömmu.
Frá fundi deiluaðila í Karphúsinu fyrir skömmu. Vísir/vilhelm
Samtök atvinnulífsins og VR hafa gert með sér samkomulag þess efnis að verkfalli VR hjá tilgreindum hópbifreiðafyrirtækjum og fyrirtækjum í gistiþjónustu er aflýst.

Efling hefur tilkynnt á Facebook-síðu sinni að félagið hafi aflýst sólarhringsverkföllum á hótelum og í hópbifreiðafyrirtækjum. Árangur hafi náðst í samningaviðræðum sem verður kynntur nánar á morgun.

Verkföllum hjá Almenningsvögnum Kynnisferða, sem keyra Strætó, hefur enn ekki verið aflýst en starfsmenn þar funda með forsvarsmönnum fyrirtækisins í fyrramálið.



Í samtali við Vísi sagði Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, árangur dagsins standa og falla með aðkomu ríkisins. Samningaaðilar hafi náð árangri en samtalið muni svo halda áfram við stjórnvöld. Hann vildi þó ekki tjá sig um hvort fall WOW air hafði haft áhrif á kröfur verkalýðsfélaganna. 

Niðurstaða dagsins verður kynnt fyrir samninganefndum en hann segir samningana flókna. Ágætis árangur hafi náðst síðustu daga og þá sérstaklega í dag.

Viðræður hafa staðið yfir í allan dag og langt fram eftir kvöldi á milli fulltrúa verkalýðsfélaganna Eflingar, VR, VLFA, VLFG, Framsýnar og LÍV við Samtök atvinnulífsins.

Elísabet Ólafsdóttir, skrifstofustjóri hjá Ríkissáttasemjara, segir fundarhöld enn standa yfir og þau muni gera það eitthvað fram á kvöld. 

Uppfært klukkan 23:50: Nú laust fyrir miðnætti staðfesti Elísabet að samningaaðilar funduðu enn en reikna má með frekari tíðindum á morgun. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×