Handbolti

Alfreð ætlar í frí og ekkert kjaftæði

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Alfreð er mögulega spenntur fyrir landsliðsþjálfarstarfi en fyrst er það frí.
Alfreð er mögulega spenntur fyrir landsliðsþjálfarstarfi en fyrst er það frí. vísir/getty
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel í þýsku 1. deildinni í handbolta, á um mánuð eftir hjá félaginu áður en hann lætur af störfum eftir gríðarlega sigursæl ár sem þjálfari þýska risans.

Alfreð varð á dögunum bikarmeistari í sjötta sinn á ferlinum en hann hefur aldrei farið í bikarúrslitaleik án þess að vinna. „Það met verður ekki jafnað eða slegið alveg á næstunni,“ segir Alfreð í viðtali við Morgunblaðið.

Akureyringurinn tók við Kiel árið 2008 og er síðan þá búinn að vinna þýsku deildina sex sinnum, bikarinn sex sinnum, Meistaradeildina í tvígang og þá hefur hann verið kosinn þjálfari ársins í Þýskalandi fimm sinnum.

Hann er í harðri baráttu við Flensburg um þýska meistaratitilinn sem að hann vann síðast árið 2015 en Alfreð getur bætt við EHF-bikarnum í safnið áður en að tímabilið klárast. Eftir það ætlar hann í frí.

„Ég ætla að taka mér hálfs árs frí til að byrja með áður en ég skoða framhaldið varðandi þjálfun. Að þessu sinni ætla ég að kúpla mig frá handboltanum,“ segir Alfreð sem ætlaði að taka sér pásu þegar að hann yfiregaf Magdeburg árið 2006. Það gekk ekki alveg.

„Áður varði ég búinn að taka að mér þjálfun landsliðs Íslands og skömmu síðar var ég líka orðinn þjálfari Gummersbach. Það var algjört kjaftæði. Ég ætla ekki að brenna mig á sama soðinu tvisvar heldur standa við það að þessu að taka mér ærlegt frí að loknum síðasta vinnudegi hjá Kiel í sumar,“ segir Alfreð Gíslason í viðtali við Morgunblaðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×