Monty Williams og Tyronn Lue eru efstir á óskalista Los Angeles Lakers sem leitar nú að nýjum þjálfara. ESPN greinir frá.
Luke Walton var rekinn frá Lakers í síðustu viku eftir enn eitt vonbrigðatímabilið hjá liðinu sem hefur ekki komist í úrslitakeppni NBA-deildarinnar síðan 2013.
Forráðamenn Lakers ætla að ræða við Williams á milli leikja 2 og 3 í einvígi Philadelphia 76ers og Brooklyn Nets í úrslitakeppni Austurdeildarinnar. Williams er einn af aðstoðarþjálfurum Philadelphia.
Williams var þjálfari New Orleans Pelicans á árunum 2010-15 og kom liðinu tvisvar í úrslitakeppnina. Hann hefur einnig verið aðstoðarþjálfari hjá Portland Trail Blazers, Oklahoma City Thunder og Philadelphia. Þá vann hann á skrifstofunni hjá San Antonio Spurs og var aðstoðarþjálfari bandaríska karlalandsliðsins á Ólympíuleikunum í Ríó 2016.
Í vikunni ætla forráðamenn Lakers líka að ræða við Lue og Juwan Howard. Lue gerði Cleveland Cavaliers að NBA-meisturum 2016 en var látinn taka pokann sinn í byrjun þessa tímabils. Howard hefur verið aðstoðarþjálfari hjá Cleveland síðan 2013. Hann var liðsfélagi Robs Palincka, sem stýrir þjálfaraleit Lakers, í Michigan-háskólanum á 10. áratug síðustu aldar.
Lakers þarf ekki bara að finna nýjan þjálfara heldur einnig forseta í stað Magic Johnson sem hætti óvænt í síðustu viku.
Þrátt fyrir að hafa fengið LeBron James í sumar vann Lakers aðeins 37 leiki á tímabilinu og komst ekki í úrslitakeppnina.
Hringurinn þrengist í þjálfaraleit Lakers

Tengdar fréttir

Magic Johnson hættur hjá Los Angeles Lakers
Magic Johnson tilkynnti óvænt í nótt að hann væri hættur sem forseti Los Angeles Lakers en hann var aðeins tvö ár í starfinu.

LeBron var „við gæi“ en er núna „ég gæi“
Bandaríski körfuboltamaðurinn LeBron James liggur vel við höggi þessa dagana og bandarískir fjölmiðlamenn eru farnir að ganga lengra en áður í gagnrýni sinni á hann.