Innlent

Stærsta herskip Þjóðverja hringsólaði í Breiðafirði

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skipið Berlin við Sundahöfnina í Reykjavík morgun.
Skipið Berlin við Sundahöfnina í Reykjavík morgun. Vísir/vilhelm
Þýskt herskip, sem nú er í höfn í Reykjavík, er hér við land með heimild íslenskra stjórnvalda. Skipið er hér við æfingar en skip af þessari gerð eru þau stærstu í þýska sjóhernum.

Þá hringsólaði skipið, Berlin A 1411, í Breiðafirði í gær. Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni leitaði skipið þar vars en veður var slæmt á svæðinu í gær.

Skipið var á ferð í Breiðafirði í gær en sigldi í höfn í Reykjavík í morgun.Skjáskot/Marine Traffic
Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir í samtali við Vísi að áhöfnin sé hér við æfingar. Tilgangurinn með Íslandsferðinni hafi einmitt verið að æfa skip og áhöfn við krefjandi aðstæður, líkt og eru viðvarandi á Norður-Atlantshafi. Sjóherir sæki gjarnan í slíkar aðstæður til að æfa sveitir sínar.

Samkvæmt vefsíðunni Naval Technology er Berlin A 1411 birgðaskip, sérstaklega hannað til mannúðaraðstoðar, af gerðinni Berlin Class 702 en skip af þeirri tegund eru þau stærstu sem þýski sjóherinn hefur til umráða. Ásgeir segir skipið hafa komið nokkrum sinnum til Íslands síðan það var smíðað upp úr aldamótum.

Fréttin hefur verið uppfærð með upplýsingum frá Landhelgisgæslunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×