Fjöldi nemenda skólans mætti á ráðhúströppurnar við Ráðhús Árborgar á Selfossi og létu í sér heyra, bæði með hvatningarópum og kröfuspjöldum, sem þau báru. En hverju voru nemendurnir aðallega að mótmæla?
„Við erum að mótmæla því að ríkisstjórnin og eiginlega allir hérna eru ekki að gera nóg í loftslagsbreytingum og plastmengun.“
En hvað haldið þið með Árborg, er Árborg að standa sig vel?
„Nei, ekki nógu vel, það er margt sem mætti bæta eins og flokkunarkerfi í skólum og fyrirtækjum, félagsmiðstöðinni og tónlistarskólanum. Það er líka stórt vandamál hvað það er mikil svifryksmengun á öllu svæðinu, það þyrfti að sópa göturnar,“ sögðu nemendurnir.
En af hverju hafa þau svona mikinn áhuga á umhverfismálum?
„Það er vegna þess að við erum að reyna að tryggja okkar framtíð í dag, við viljum framtíð fyrir okkur sjálf og börnin okkar, annars deyjum við bara.“

„Mér finnst þetta frábært. Þetta byrjar svona, fólk fer að hugsa um hlutina, tala um þá, vekja athygli á þeim og krefjast þess að aðrir opni augun. Þetta er það eina sem við getum gert, fólkið sem er dreift um þorp og bæi, reyna að vekja athygli, við getum gert bara pínulítið sjálf en þegar við komum saman, eins og þau eru að gera hérna þá skiptir það máli.“