Erlent

Lögregla skaut á ökumann fyrir utan sendiráð Úkraínu í London

Andri Eysteinsson skrifar
Maðurinn reyndi að aka á lögreglumenn sem brugðust við með skotvopnum.
Maðurinn reyndi að aka á lögreglumenn sem brugðust við með skotvopnum. Getty/NurPhoto
Lögregla skaut í dag á ökumann bíls fyrir utan úkraínska sendiráðið í vestur hluta Lundúna. Ökumaðurinn hafði vísvitandi endurtekið ekið á kyrrstæðan bíl sendiherrans, Nataliu Galibarenko. Galibarenko var þó ekki í bílnum og varð því ekki meint af.

Sky greinir frá því að lögregla hafi verið kölluð á staðinn til að reyna að stoppa manninn. Ökumaðurinn virti ekki skipanir Lögreglu og hélt áfram að keyra á bílinn og reyndi einnig að aka yfir lögreglumennina.

Í yfirlýsingu frá úkraínska sendiráðinu segir að þá hafi lögreglumennirnir ekki átt neinna aðra kosta völ en að taka upp skotvopn sín og hleypa af. Maðurinn var að endingu handtekinn á staðnum og fluttur á sjúkrahús eins og vaninn er eftir handtöku þar sem skotvopn og rafbyssur koma við sögu.

Scotland Yard staðfesti að maðurinn væri á fimmtugsaldri og hefði ekki orðið fyrir meiðslum. Einnig sagði í yfirlýsingu lögreglu að málið yrði ekki rannsakað sem hryðjuverk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×