Erlent

Nigel Farage stofnar Brexit-flokkinn

Atli Ísleifsson skrifar
Nigel Farage vill áfram eiga sæti á Evrópuþinginu.
Nigel Farage vill áfram eiga sæti á Evrópuþinginu. EPA
Nigel Farage, fyrrverandi formaður Breska sjálfstæðisflokksins (UKIP), hefur stofnað nýjan stjórnmálaflokk, Brexit-flokkinn, og segist hann vilja sjá „lýðræðisbyltingu“ eiga sér stað í Bretlandi.

Farage greindi frá stofnun flokksins í Coventry fyrr í dag og sagði hann fyrirhugaðar Evrópuþingskosningar vera fyrsta mál á dagskrá flokksins, en að fyrsta „verkefni“ hans væri að „breyta stjórnmálunum“.

Í frétt BBC segir að fulltrúar UKIP hafi lýst nýstofnuðum flokki Farage sem engu nema tæki fyrir Farage sjálfan.

Tilkynnt er um Brexitflokkinn eftir að Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, samþykkti að fresta útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu til 31. október, með þeim fyrirvara að hægt verði að ganga út fyrr, samþykki breska þingið útgöngusamninginn. Frestunin þýðir að kosningar til Evrópuþingsins fara einnig fram í Bretlandi í lok næsta mánaðar.

Farage sagði Brexitflokkinn vera með tilkomumikinn sjötíu manna framboðslista, en í hópi þeirra er meðal annars að finna Annunziata Rees-Mogg, systur þingmanns Íhaldsflokksins, Jacob Rees-Mogg, sem var einn helsti talsmaður útgöngusinna Íhaldsflokksins í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2016.

Farage var formaður UKIP með hléum á árunum 2006 til 2016. Hann hefur átt sæti á Evrópuþinginu frá 1999.


Tengdar fréttir

Brexit frestað til 31. október

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hafði farið fram á frest til 30. júní en leiðtogar ESB ræddu málið langt fram á kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×