Enski boltinn

Solskjær: Ég get ekki séð það að Paul Pogba fari í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Pogba á æfingu fyrir leikinn á móti Barcelona í kvöld.
Paul Pogba á æfingu fyrir leikinn á móti Barcelona í kvöld. Getty/Nathan Stirk
Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, þurfti að sjálfsögðu að svara spurningum um franska landsliðsmanninn Paul Pogba á blaðamannafundi í gær.

Solskjær var mættur til að taka um leikinn á móti Barcelona í Meistaradeildinni á Old Trafford í kvöld en fjölmiðlamenn nýttu tækifærið og spurðu Norðmanninn út í stöðugan orðróm um að Paul Pogba sé á förum frá Manchester United í sumar.

Pogba kom til Manchester United á ný í ágúst 2016 en hefur verið mikið orðaður við spænska stórliðið Real Madrid á síðustu vikum.





„Paul Pogba hlakkar til leiksins á morgun (í kvöld). Þegar hann er upp á sitt besta þá getur hann stjórnað leik eins og þessum,“ sagði Ole Gunnar Solskjær sem kveikti heldur betur á Frakkanum þegar hann tók við United liðinu af Jose Mourinho.

„Ég get ekki séð það að Paul Pogba fari í sumar og spili ekki með Manchester United á næsta tímabili,“ sagði Solskjær.

Manchester United komst í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar án Paul Pogba en hann tók út leik bann í 3-1 sigri United liðsins í seinni leiknum á móti Paris Saint Germain í París.

Pogba var rekinn út af í fyrri leiknum sem Manchester United tapaði 2-0 á heimavelli.

„Hann veit vel sjálfur að leikurinn á móti PSG var ekki hans besta frammistaða. Hans starf í þessu liði er að búa til, vinna boltann og keyra liðið fram völlinn. Ég býst við að hann standi sig vel í leiknum á morgun (í kvöld),“ sagði Ole Gunnar.

Leikur Manchester United og Barcelona hefst klukkan 19.00 og verður í beinni á Stöð 2 Sport. Á sama tíma mætast Ajax og Juventus á Stöð 2 Sport. Upphitun fyrir leiki kvöldsins í Meistaradeildinni hefst klukkan 18.30 á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×