Innlent

Hafði áður hótað bróður sínum og sætti nálgunarbanni

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá vettvangi í Mehamn í gær.
Frá vettvangi í Mehamn í gær. TV2/Christoffer Robin Jensen
Íslenskur karlmaður sem er grunaður um að hafa skotið hálfbróður sinn til bana í Noregi í gær hafði áður haft í hótunum við hann og var í nálgunarbanni, að sögn norsku lögreglunnar. Ekki hefur enn verið hægt að yfirheyra manninn.

Tveir Íslendingar eru í haldi norsku lögreglunnar vegna dauða Gísla Þórs Þórarinssonar í bænum Mehamn í Finnamörk í norðanverðum Noregi í fyrrinótt. Hvorki norska né íslenska lögreglan hefur greint frá nafni hans en systir hans staðfesti það við Vísi í hádeginu. Norska lögreglan sagðist ekki ætla að birta nafnið þar sem íslensk yfirvöld hefðu ekki staðfest að náðst hefði í alla aðstandendur.

Í tilkynningu frá norsku lögreglunni segir að hún hafi haft hótanir hálfbróður Gísla Þórs í garð hans til rannsóknar. Hálfbróðirinn hafi verið úrskurðaður í nálgunarbann 17. apríl.

Bæði hálfbróðirinn og annar íslenskur maður sem var handtekinn vegna dauða Gísla Þórs verða leiddir fyrir dómara á morgun. Lögreglan segir að annar þeirra sé grunaður um að hafa valdið dauða Gísla Þórs en hinn um að hafa átt aðild að því.

Jafnframt kemur fram að hálfbróðirinn hafi enn ekki viljað láta yfirheyra sig. Óskað verði eftir fjögurra vikna gæsluvarðhaldi yfir honum og einangrunarvist en einnar viku gæsluvarðhaldi yfir hinum. Reynt verði að yfirheyra þá í vikunni.

Lögmaður mannsins sem er grunaður um aðild að dauða Gísla Þórs sagði að hann neitaði sök. Hálfbróðirinn skrifaði færslu á Facebook í gær þar sem hann virðukenndi að hafa orðið Gísla Þór að bana og baðst fyrirgefningar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×