Innlent

Árás á ungan dreng í Grafarvogi ekki rannsökuð sem hatursglæpur

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Grafarvogur.
Grafarvogur. Vísir/Vilhelm
Meint árás hóps ungmenna á ungling af erlendum uppruna í Langarima í Grafarvogi á páskadag er ekki til rannsóknar sem hatursglæpur. Að sögn lögreglu er málið rannsakað sem líkamsárás. Þetta kemur fram á vef Ríkisútvarpsins.

Sigurður Hólm Gunnarsson iðjuþjálfi og íbúi í Grafarvogi tilkynnti málið til lögreglu og greindi frá því í hópi sem ætlaður er íbúum Grafarvogs á Facebook daginn sem árásin á að hafa átt sér stað.

Sjá einnig: Lögreglan rannsakar skuggalegt atvik í Grafarvogi

Í færslu sinni inn á hópinn segir Sigurður árásarmennina hafa tekið aðfarirnar upp á síma. Þegar hann hafi reynt að skakka leikinn hafi honum ógnandi verið tjáð að þetta kæmi honum ekki við en piltarnir létu sér ekki segjast fyrr en Sigurður tók símann upp og hringdi á lögregluna.

„Fórnarlambið, sem er af erlendum uppruna, var augljóslega skelkað og niðurbrotið,“ segir í færslu Sigurðar, þar sem hann segist hafa beðið með viðkomandi uns lögregla mætti á vettvang.

Í frétt RÚV kemur fram að samkvæmt Kristjáni Ólaf Guðnasyni aðstoðaryfirlögregluþjóni sé málið enn í rannsókn. Hann segi einnig að ekkert bendi til þess að árásin tengist útlendingahatri.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×