Innlent

Kyndill nýtur góðs af minningarsjóði Jennýjar Lilju

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá afhendingu styrksins í dag.
Frá afhendingu styrksins í dag. Aðsend
Minningarsjóður Jennýjar Lilju Gunnarsdóttur afhendir í dag Björgunarsveitinni Kyndli á Kirkjubæjarklaustri þrjú loftdýnusett til að auðvelda sveitinni störf á vettvangi slysa. Eftir hörmulegt slys við Núpsvötn í desember þar sem þrír létust kallaði liðsmaður Kyndils eftir betri búnaði til að bregðast við alvarlegum slysum sem þessum.

„Það þarf einhvern veginn að útvega fjármagn í að hérna sé meiri búnaður til staðar, það er bara þannig. Það eru gríðarlega margir sem fara hérna um og vegalengdirnar eru svo miklar. Það má eiginlega ekkert vanta. Það líður töluverður tími þangað til að þyrlurnar koma og þá þurfum við, þetta fáa fólk sem er hér í þessari viðbragðsstöðu að hafa aðgang að góðum búnaði,“ sagði Björn Helgi Snorrason björgunarsveitarmaður í samtali við Mbl.is daginn eftir slysið.

Í tilkynningu frá minningarsjóðum segir að loftdýnusettin séu frá Germa AB og dýnurnar hannaðar til að tryggja hámarksstöðugleika á ferð fyrir slasaða sjúklinga.

Jenný Lilja lést af slysförum á bænum Einholti í Biskupstungum þann 24. október árið 2015 en hún var þriggja ára gömul.

Fréttin var uppfærð með mynd að lokinni afhendingu styrksins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×