Laxeldiskvíar norska fyrirtæksins eru nú á þremur stöðum í Norður-Noregi en hugmyndin er að nota samskonar kvíar til að byggja upp tuttugu þúsund tonna laxeldi í Eyjafirði.
„Þetta svínvirkar,“ segir Rögnvaldur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Akvafuture ehf., en hann er Bolvíkingur og lærður sjávarútvegsfræðingur frá Háskólanum á Akureyri.

Akvafuture hefur frá því haustið 2017 undirbúið umsókn á eldi í lokuðum kvíum á sex stöðum í Eyjafirði.
„Það er ekki laxalús sem kemur á fiskinn okkar. Við stjórnum lífkerfinu í þessum kvíum okkar. Og við tökum upp töluverðan hluta, - stærstan hluta, af úrganginum sem fellur til við eldið.“
Úrgangurinn er svo endurnýttur í lífeldsneyti.
„Og er notaður til að drífa strætó í Þrándheimi í Noregi.“

„Við höfum miklar áhyggjur af því að sú mikla vinna, sem við erum þegar búnir að leggja í, hún verði til einskis.“
Hann segist ekki vera að biðja um forgang heldur að jafnræðis verði gætt og nefnir sem dæmi Ísafjarðardjúp, sem búið sé að burðarþolsmeta.
„Ef það svæði á ekki að fara í útboð þá finnst okkur við ekki sitja við sama borð og önnur fyrirtæki, sem þegar hafa haslað sér völl hér við Ísland.“

„Ég er ekki að segja að við séum með einu lausnina. Það er fullt af fyrirtækjum í Noregi sem er að vinna allskonar þróunarstarf í kringum lokuð, umhverfisvæn kerfi. Þetta hlýtur að vera framtíðin,“ segir framkvæmdastjóri Akvafuture ehf.
Hér má sjá viðtalið við Rögnvald: