Erlent

Beita þjóðir refsiaðgerðum sem kaupa olíu af Íran

Hallgerður Kolbrún E Jónsdóttir skrifar
Bandaríkin endurvöktu refsiaðgerðir gegn Íran í nóvember.
Bandaríkin endurvöktu refsiaðgerðir gegn Íran í nóvember. Getty/Staton R. Winter
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur ákveðið að binda endi á undanþágur á refsiaðgerðum fyrir ríki sem enn kaupa olíu frá Íran. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins BBC

Hvíta húsið sagði að undanþágur sem Kína, Indland, Japan, Suður-Kórea og Tyrkland hafa fengið muni renna út í byrjun maí, en þá myndu þau eiga yfir höfði sér fjárhagslegar refsingar.

Með þessum aðgerðum er verið að reyna að stöðva útflutning Íran á olíu, sem er aðal tekjulind íranska ríkisins.

Trump endurvakti refsiaðgerðirnar eftir að hann ákvað að yfirgefa samningsborðið þar sem verið var að vinna að kjarnorkusamningi á milli Íran og sex annarra stórríkja.

Trump stjórnin vonast til að refsiaðgerðirnar fái Íran til að setjast við samningsborðið til að vinna að nýjum samning sem ekki aðeins myndi ná til kjarnorkuvopna heldur einnig flugskeytahernaðar Íran, sem víða hefur valdið usla í Mið-Austurlöndum.

Bandarísk yfirvöld segjast ekki sækjast eftir stjórnarskiptum.

Refsiaðgerðirnar hafa valdið miklum samdrætti í hagkerfi Íran og gjaldmiðillinn hefur aldrei haft jafn lágt gildi, verðbólgan hefur fjórfaldast sem hefur valdið því að erlendir fjárfestar hafa yfirgefið landið og mótmæli hafa brotist út.

Bandaríkin endurvöktu viðskiptabannið í nóvember, sem nær til orku, skipasmíða, flutninga og bankageirans, sem yfirvöld lýstu sem undirstöðum hagkerfisins þar í landi.

Þau veittu hins vegar átta stærstu kaupendum íranskra hrávara undanþágu við viðskiptabanninu, en það náði til Kína, Indlands, Japan, Suður-Kóreu, Taívan, Tyrklands, Ítalíu og Grikklands, að sögn til að veita þeim svigrúm til að færa viðskipti sín annað og koma í veg fyrir högg á olíumarkaði heimsins.

Ítalía, Taívan og Grikkland hafa þegar hætt að kaupa íranska olíu. Hin ríkin hafa þó beðið um framlengingu á undanþágunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×