Lífið

Mikið undir hjá Hatara í Tel Aviv í dag

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Matthías Tryggvi Haraldsson, söngvari Hatara, teygir á fyrir fyrstu æfinguna á sunnudaginn.
Matthías Tryggvi Haraldsson, söngvari Hatara, teygir á fyrir fyrstu æfinguna á sunnudaginn. Andres Putting
Það dregur til tíðinda í dag þegar Hatari stígur á svið á seinni sviðsæfingu sinni fyrir undanúrslitin á þriðjudagskvöld. Alls keppir 41 þjóð í Eurovision en sex þeirra, stóru þjóðirnar svokölluðu, eiga sæti víst úrslitakvöldið 18. maí. Aðrar þjóðir hafa lokið einni æfingu á sviðinu og fyrstu fimmtán þjóðirnar á svið á þriðjudagskvöldið æfa í Expo Tel Aviv í dag, Ísland á öðrum tímanum að íslenskum tíma.

Skellt var í lás í keppnishöllinni í gær þar sem Ísraelar minntust fallinna hermanna og almennra borgara sem fallið hafa í árásum. Dyrnar verða galopnaðar í dag þegar fyrstu þjóðirnar fimmtán mæta hver á fætur annarri og reyna að fullnýta tímann á sviði. Um er að ræða hálftíma þar sem reiknað er með því að hver þjóð nái að renna í gegnum lagið sitt þrisvar sinnum.

Um leið er gengið úr skugga um að sviðsmennirnir séu með allt á hreinu en sekúndur skipta máli þegar kemur að því að færa hluti inn og útaf sviði á þeim sekúndum sem líða á milli laga. Þá þarf að stilla af allar myndavélar, ljós og íslenski hópurinn fær sitt seinna og síðasta tækifæri til að hafa áhrif á útlitið, tilfinningu og hljóð áður en kemur að dómararennslinu og svo undanúrslitakvöldinu á þriðjudag.

Að neðan má sjá samantekt frá fyrstu æfingum þjóðanna í Tel Aviv.

Enn taldar 4% líkur á íslenskum sigri 

Hatari er í áttunda sæti á lista Eurovision World þar sem teknar eru saman líkur á því að þjóðirnar vinni keppnina.

Hollendingurinn Duncan Laurence er talinn langlíklegastur til þess að standa uppi sem sigurvegari með lag sitt Arcade. Líkurnar eru taldar 25% en Eurovision World tekur saman líkur ólíkra veðbanka og vinnur líkur á sigri út frá þeim.

Fullyrt er á vef Eurovision að æfing Laurence hafi gengið frábærlega, frá upphafi til enda. Dæmi hver fyrir sig.

Næstur kemur Rússinn Segey Lazarev með lagið Scream en líkurnar á rússneskum sigri eru taldar vera 12%. Eurovision-unnendur muna eflaust margir eftir Lazarev frá því í Svíþjóð 2016 þar sem hann náði 3. sæti og vann símakosninguna.

Ítalinn Mahmood með lagið Soldi er talinn þriðji líklegastur þessa stundina til að hrósa sigri. Líkurnar eru taldar 10%. Þar á eftir koma Aserbaíjdan, Svíþjóð og Sviss áður en Malta og Ísland koma í 7. og 8. sæti með 4% líkur á sigri. Líkurnar á íslenskum sigri voru 5% eftir fyrri æfinguna en hafa minnkað síðan.

Allar líkur eru taldar á því að íslenska liðið rjúki upp úr riðli sínum á þriðjudaginn. Sautján þjóðir eru í fyrri undanúrslitariðlinum en átján í þeim seinni á fimmtudagskvöldinu. Tíu þjóðir komast upp úr hvorum riðli og keppa í úrslitum ásamt stóru þjóðunum sex; Ísrael, Frakkland, Þýskaland, Ítalía, Spánn og Bretland.

Mat veðbanka á stöðunni að kvöldi 8. maí.EurovisionWorld

Í baráttu við stjórnandann

Blaðamannafundur Hatara fer svo fram í keppnishöllinni seinni partinn á morgun, um 45 mínútum eftir að æfingunni líkur. Fyrsti blaðamannafundurinn var um margt áhugaverður þar sem stjórnandinn reyndi að hafa hemil á Hataramönnum og stýra umræðunni en hljómsveitin gekk ákveðið fram að fá að svara þeim spurningum sem bárust.

Þótt fundurinn hafi vakið mikla athygli hér á landi, en fréttir af fundinum voru mikið lesnar á vefmiðlum, virðist áhugi annarra þjóða af skornum skammti. Sögðust söngvararnir tveir, þeir Matthías Tryggvi Haraldsson og Klemens Hannigan, að æfingin hefði gengið mjög vel fyrir sig. 

Kom fram í máli Matthíasar að hljómsveitin hygðist vissulega nýta dagskrárvaldið til að halda uppi gagnrýninni umræðu í tengslum við það samhengi sem keppnin er haldin í. Á sama tíma væru þau einnig staðráðin í því að taka þátt í keppninni og hlýða reglunum á hinu eiginlega sviði eins og allir aðrir. 

Minntu þeir einnig á áskorun sína til Benjamin Nethanyahu, forsætisráðherra Ísraels, að keppa við þá í íslenskri glímu.

Voru Hatarar spurðir út í sína skoðun á hinu eldfima ástandi á Gaza-ströndinni.

„Við viljum að sjálfsögðu sjá hernáminu ljúka eins fljótt og auðið er, og við bindum vonir við að friði verði komið á. Við erum vongóð,“ náði Matthías Tryggvi að segja í lok fundarins. 

Spennandi verður að sjá hvort liðsmenn Hatara fái áhugaverðar spurningar á blaðamannafundinum á morgun sem reiknað er með að taki um 20 mínútur. Í framhaldinu mun sveitin veita einstökum miðlum viðtöl.

Fjögur mögur ár 

Óhætt er að segja að eftirvæntingin á Íslandi fyrir Eurovision hafi sjaldan verið meiri. Gengi Íslands undanfarin fjögur ár hefur verið skelfilegt. María Ólafs, Greta Salóme, Svala og Ari Ólafsson komust ekki upp úr undanúrslitariðlunum árin 2015 til 2018.

Atriði Íslands í ár, Hatrið mun sigra, er ekki aðeins öðruvísi og djarft heldur einnig umdeilt. Sumir foreldrar súpa kveljur þegar þeir heyra börn sín syngja að Hatrið muni sigra. Liðsmenn Hatara eru iðullega í karakter í viðtölum sínum og stundum erfitt að átta sig á því hvað sé grín og hvað sé alvara.

Páll Óskar Hjálmtýsson er mótfallinn því að Ísland taki þátt í Eurovision.Vísir/Vilhelm
Ekki nóg með það heldur þykir afar umdeilt til að byrja með að Ísland taki þátt í ljósi hatrammra deilna Ísraela og Palestínumanna sem ekkert bendir til að finnist lausn á í náinni framtíð. Meðal þeirra sem hafa mótmælt þátttöku Íslands er Páll Óskar Hjálmtýsson, Eurovision goðsögn, sem hefur blásið af árlegt Pallaball á Eurovision-kvöldinu, kvöldi sem ljóst er að Páll Óskar hefur haft miklar tekjur af undanfarin ár.

Engin þjóð hefur dregið sig úr keppni af pólitískum ástæðum. Búlgarir ákváðu að taka sér pásu í ár, sem fullt af fordæmum er fyrir, auk þess sem Úkraína dró sig úr keppni vegna skandals í undankeppninni þar í landi.

Æfingin í dag skiptir miklu máli upp á útkomuna enda verður litlu sem engu breytt í framhaldinu. Takist æfingin vel og blaðamannafundurinn sömuleiðis er aldrei að vita nema Ísland hækki sig hjá veðbönkunum.

Sigur í Eurovision er líklegast langsóttur draumur en svo virðist sem mikið þurfi að ganga á til þess að Ísland eigi ekki loksins fulltrúa á úrslitakvöldi keppninnar, laugardagskvöldið 18. maí. Sem gerir vinsælasta partýkvöld landans miklu skemmtilegra.

Uppfært klukkan 16. Hér að neðan má sjá stutt myndband af æfingunni sem aðstandendur Eurovision sendu frá sér í lok dags.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×