Fellibylnum Fani hefur fylgt mikil eyðilegging og flóð en hann er einn öflugasti fellibylur til að ganga á land á Indlandi í áraraðir. Dregið hefur úr styrk bylsins eftir að hann gekk á land á austurströnd Indlands en upp á sitt mesta náði hann 200 metrum á sekúndu.
Hundruð þúsunda íbúa héraðsins Orissa hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna flóða en héraðið er eitt það fátækasta á Indlandi. Skólum hefur víða verið lokað og allar samgöngur liggja niðri. Yfirvöld hafa staðfest að tveir eru látnir.
Fellibylurinn gekk yfir borgina Puri síðdegis í dag að íslenskum tíma. Snemma í fyrramálið nálgast bylurinn borgina Kalkota og síðdegis á morgun gengur hann yfir Bangladess og aðfaranótt sunnudags inn á norðausturhluta Indlands. Óttast er að mannfall aukist þegar hann gengur inn á viðkvæm svæði, til dæmis yfir flóttamannabúðir Róhingja í Bangladess.
