Í laginu Hatrið mun sigra öskrar Matthías Tryggvi Haraldsson af lífsins sálar kröftum en Klemens Hannigan færir svo lagið á ljúfari nótur með falsettu sinni í viðlaginu.
Breski sjónvarpsmaðurinn Graham Norton er mikill áhugamaður um Eurovision og lýsir keppninni í Bretlandi.
Hann var beðinn um að leggja mat sitt á lögin í Eurovision í myndbandinu hér að neðan. Hann leggur engan dóm á framlagið sem slíkt en lætin í Hatara vekja athygli hans.
„Ef þú kannt að meta þessu háværu tónlist þá muntu kjósa lagið. Íslendingar hljóta að fagna því að vera lausir við hljómsveitina í það minnsta í tvær vikur á meðan hún er í Tel Aviv. Kærkomið frí fyrir nágranna þeirra.“
Hatari er þrettánda atriði á svið í kvöld þegar fyrri undanúrslitariðillinn fer fram.
Innslagið má sjá hér að neðan. Umfjöllunin um Hatara birtist eftir um tvær mínútur.