Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk klukkan 00:41 í nótt tilkynningu um mann sem hafði verið ógnað með eggvopni í miðbæ Reykjavíkur.
Í samtali við fréttastofu segir Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, kynningarfulltrúi lögreglunnar, að hinn grunaði hafi verið í annarlegu ástandi. Maðurinn með eggvopnið rændi veski af þolandanum í kjölfarið.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu náði að handtaka hinn grunaða og var hann vistaður í fangageymslu í þágu málsins.
Aðspurður hvort það væri algengt að fólki sé ógnað með hníf í miðborginni svaraði Gunnar Rúnar því til að hann hefði ekki gögnin fyrir framan sig en þetta væri þó langt því frá í fyrsta skiptið sem slíkt gerðist á höfuðborgarsvæðinu.
Ógnaði manni með eggvopni og rændi veski
Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
