Ferðamenn sem sótt hafa náttúruperlurnar við Geysi og Gullfoss hafa orðið fyrir barðinu á þjófagengi og segir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, að fjölmörg mál hafi verið tilkynnt til lögreglu á undanförnum dögum.
„Þetta eru fjögur eða fimm tilfelli sem hafa verið tilkynnt til okkar og það er nú aðallega verið að stela gjaldeyri það sem svona munstrið sem við erum að sjá í þessu, það er verið að ná í peninga,“ segir Sveinn Kristján og bætir við að fólkið hafa notað þá aðferð að seilast í vasa ferðamanna á svæðinu.
„Já í rauninni. Þau virðast sækja veski og týna úr þeim gjaldeyri og skilja allt annað eftir,“ segir Sveinn. Eftir að tilkynningar um parið tóku að berast fór lögregla að fylgjast með ferðum þeirra en þau voru svo handtekin vegna málsins.

Fólkið kom hingað til lands sem ferðamenn. Sveinn segir fólkið hafa náð töluverðum fjárhæðum af fólki þegar öll málin eru tekin saman.
„Þetta eru einhverjir, jú sjálfsagt einhverjir hundrað þúsund kallar,“ segir Sveinn.
Er búið að koma í veg fyrir að þetta geti endurtekið sig?
„Nei, það er ekki. En við reynum að fylgjast með eins og við getum og starfsfólk á þessu svæði upplýst,“ segir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi.