Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þurfti að sinna fjölda útkalla vegna kvartana frá heimahúsum þar sem þurfti oft og ítrekað að fara og biðja húsráðendur um að lækka hávaða í gærkvöldi og í nótt. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.
Þar segir einnig frá fullorðnum manni sem kom út úr verslun á Seltjarnarnesi rétt fyrir klukkan 21 í gærkvöldi með tvo burðarpoka og stal reiðhjóli af unglingi og hjólaði á brott. Maðurinn fannst ekki.
Laust eftir klukkan 17 í gærkvöldi var bifreið stöðvuð í Reykjavík þar sem ökumaðurinn var grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og ítrekaðan akstur án réttinda. Farþegi í bílnum er grunaður um vörslu fíkniefna.
Um klukkan tvö í nótt voru höfð afskipti af manni þar sem hann kastaði af sér þvagi á tröppur stjórnarráðsins. Maðurinn var kærður fyrir brot á lögreglusamþykkt.
Þurfti lögreglan að loka þremur veitingahúsum í miðborginni í nótt sem höfðu ekki lokað á réttum tíma, það er klukkan þrjú.
Rétt fyrir klukkan eitt í nótt var tilkynnt um menn sem slógust með rörum í Kópavogi. Einn var handtekinn og vistaður í fangaklefa og einn fluttur á slysadeild, en meiðsli hans liggja ekki fyrir.
Laust eftir klukkan níu í gærkvöldi voru afskipti höfð af unglingapartíi í Árbæ en það var afgreitt með aðkomu foreldra.
Slógust með rörum í Kópavogi
Birgir Olgeirsson skrifar

Mest lesið

Kjarasamningur kennara í höfn
Innlent

Engin röð á Læknavaktinni
Innlent





Reykjavík ekki ljót borg
Innlent


