Grínistinn og leikkonan Jo Brand var gestur útvarpsþáttarins Heresy á BBC þegar hún lét ummælin falla. Þau komu í kjölfar umræðu um mótmæli sem hafa farið hátt í fjölmiðlum að undanförnu, þar sem mjólkurhristingum hefur verið hent í stjórnmálamenn á hægri væng breskra stjórnmála. Sky News greinir frá þessu.
„Ég myndi segja að nokkrir ógeðfelldir einstaklingar [stjórnmálamennirnir sem hafa fengið yfir sig mjólkurhristinga] séu í forgrunni þessa máls. Það er mjög, mjög auðvalt að hata þá og ég er eiginlega að hugsa: „Til hvers að vera að ómaka sig með mjólkurhristingum þegar þú getur náð þér í rafgeymasýru,““ sagði Brand.
„Það er bara ég. Ég ætla ekki að gera þetta. Þetta er hrein og klár fantasía. En mér finnst mjólkurhristingar vera aumkunarverðir, mér finnst það í alvöru. Því miður,“ hélt Brand áfram.

Íhaldsfólk ósátt með ummælin
Talsmaður forsætisráðherrans segir May ætíð hafa sagt stjórnmálamenn eiga að geta boðið sig fram án þess að eiga á hættu að vera áreittir, ógnað eða beittir ofbeldi á einhvern hátt.„Það er hlutverk BBC að útskýra hvers vegna þótti viðeigandi að útvarpa þessum ummælum.“
Nigel Farage, leiðtogi Brexit-flokksins, er einn þeirra sem hefur orðið fyrir mjólkurhristingi. Í síðasta mánuði fékk hann yfir sig einn slíkan á kosningafundi í Newcastle. Farage sakar Brand um að ýta undir ofbeldi og segist telja lögregluna þurfa að aðhafast í málinu.
BBC ver ummælin
Talskona BBC segir Heresy vera gamalgróinn grínþátt og að titill hans, sem á Íslensku myndi útlistast sem „Trúvilla,“ gefi til kynna að gestir þáttarins kunni að vilja ögra hlustendum og fara gegn félagslegum venjum, án þess að allt sem þeir segi sé tekið alvarlega.Coren Mitchell, þáttastjórnandi Heresy, sagðist í lok umrædds þáttar vona að ummæli Brand hafi ekki móðgað neinn en benti á að markmið þáttarins væri að „reyna á þolmörk þess sem má og má ekki segja.“
