Erlent

Mæla með að ráðgjafa Trump verði vikið úr embætti

Kjartan Kjartansson skrifar
Alríkisstarfsmenn eiga ekki að vera pólitískir þegar þeir koma fram í nafni embættis síns. Það hefur Kellyanne Conway þó ítrekað gert.
Alríkisstarfsmenn eiga ekki að vera pólitískir þegar þeir koma fram í nafni embættis síns. Það hefur Kellyanne Conway þó ítrekað gert. Vísir/EPA
Sjálfstæð eftirlitsstofnun bandarísku alríkisstjórnarinnar mælir með því að Kellyanne Conway, ráðgjafa Donalds Trump forseta, verði vikið úr opinberu embætti vegna ítrekaðra brota á lögum sem banna alríkisstarfsmönnum að taka þátt í stjórnmálastarfi.

Í skýrslu sem skrifstofa sérstaks lögmanns alríkisstjórnarinnar sem annast innra eftirlit hefur sent Trump forseta kemur fram að Conway hafi ítrekað brotið Hatch-lögin svonefndu með því að „niðra forsetaframbjóðendur demókrata þegar hún talaði í nafni opinbers embættis síns í sjónvarpsviðtölum og á samfélagsmiðlum“.

Vegna þess að Conway er að mati stofnunarinnar „síbrotamanneskja“ mælir hún með því að henni verið vikið úr opinberu embætti. Það er í höndum Trump forseta að ákveða örlög Conway, að sögn Washington Post. Heimildir blaðsins innan Hvíta hússins herma að Trump sé líklegri til að taka upp hanskann fyrir Conway en refsa henni fyrir lögbrotin.

Yfirlögfræðingur Hvíta hússins hefur þegar krafist þess að eftirlitsstofnunin dragi ráðleggingu sína um brottvikingu Conway til baka. Hvíta húsið fullyrðir að niðurstað stofnunarinnar sé meingölluð og brjóti á stjórnarskrárvörðu tjáningarfrelsi Conway.

Forstöðumaður skrifstofu sérstaka lögmannsins var skipaður af Trump í embættið. Stofnunin er óháð eftirlitsstofnun sem hefur meðal annars umsjón með framfylgd Hatch-laganna og fleiri reglna um skyldur alríkisstarfsmanna. Það er ekki sama stofnun og skrifstofa sérstaka rannsakandans sem rannsakaði afskipti Rússa af forsetakosningunum árið 2016 og meintu samráði framboðs Trump við þá.

„Bla, bla bla“

Conway er þekkt fyrir að vera einarður málsvari Trump forseta og snúa upp á sannleikann ef svo ber undir. Á meðal ummælanna sem talin eru hafa brotið Hatch-lögin eru þau þegar Conway mærði fatalínu Ivönku Trump, dóttur forsetans, árið 2017. Hvíta húsið sagði að Conway hefði fengið „ráðgjöf“ eftir það atvik.

Í fyrra gerðist Conway í tvígang sek um að brjóta lögin þegar hún lýsti stuðningi við frambjóðanda repúblikana og gagnrýndi frambjóðanda demókrata í aukakosningum um þingsæti í Alabama þegar hún kom fram sem alríkisstarfsmaður.

Sex aðrir starfsmenn Hvíta hússins hafa verið taldi brjóta gegn Hatch-lögunum með því að nota opinbera samfélagsmiðlareikninga sína til að senda út pólitísk skilaboð til stuðnings Trump.

Conway hefur sjálf gert lítið úr alvarleika lögbrotanna.

„Bla, bla, bla. Ef þið eruð að reyna að þagga niður í mér með Hatch-lögunum þá á það ekki eftir að virka. Látið mig vita þegar fangelsisafplánunin hefst,“ sagði hún í síðasta mánuði.


Tengdar fréttir

Conway braut siðferðislög

Trump sjálfur mun þó ákveða hvort og þá hvaða refsingu Kellyanne Conway mun hljóta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×