Langflestir þeirra nemenda sem sóttu um skólavist í framhaldsskólum næsta haust fengu skólavist í þeim skóla sem þeir settu í fyrsta eða annað val, eða um 96 prósent. Innritun nýnema fyrir næsta skólaár lauk í gær.
Menntamálastofnun hefur unnið að því að finna þeim nemendum, sem ekki fengu inni í skólum sem voru fyrsta eða annað val, skólavist í þriðja skóla. Hefur sú vinna gengið vel að því er segir í tilkynningu.
Alls sóttu 4.077 nemendur, eða 95 prósent þeirra sem luku grunnskóla í vor, um framhaldsskólavist. Vinsælustu skólarnir sem fyrsta val voru að þessu sinni Verzlunarskóli Íslands, Menntaskólinn við Sund og Tækniskólinn.
