Innlent

Búið að opna nær alla hálendisvegi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Gatnamót Sprengisandsleiðar og Dyngjufjallaleiðar eru við Tómasarhaga. Tungnafellsjökull sést fjær. Þar er enn lokað fyrir umferð um veg F910 í átt til Öskju.
Gatnamót Sprengisandsleiðar og Dyngjufjallaleiðar eru við Tómasarhaga. Tungnafellsjökull sést fjær. Þar er enn lokað fyrir umferð um veg F910 í átt til Öskju. Stöð 2/Sveinn Arnarsson.
Gæsavatnaleið og Dyngjufjallaleið, norðan Vatnajökuls, ásamt Stórasandi, norðan Langjökuls, eru einu hálendisvegirnir sem enn eru sýndir lokaðir á hálendiskorti Vegagerðarinnar. Búið er að opna alla aðra fjallvegi landsins, suma allt að mánuði fyrr en venjulega. 

Leiðirnar norðan Vatnajökuls voru skoðaðar í síðustu viku, samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar, og var staðan þá þannig að ekki þykir ástæða til að skoða þær aftur fyrr en í næstu viku. Leiðir um Stórasand eru hins vegar enn sýndar lokaðar þar sem engar upplýsingar hafa borist um ástand vega þar.

Nýjasta hálendiskort Vegagerðarinnar.
Leiðirnar þrjár af Sprengisandi til Norðurlands voru með þeim síðustu sem opnaðar voru. Skagafjarðarleið og Bárðardalsleið voru opnaðar 26. júní og Eyjafjarðarleið 27. júní. Leiðin að Snæfellsskála, norðaustan Vatnajökuls, var opnuð 28. júní. 

Vegirnir í eyðibyggðirnar milli Eyjafjarðar og Skjálfanda eru meðal þeirra sem opnuðust óvenju snemma í ár, fært varð á Flateyjardal þann 19. júní og í Fjörður þann 21. júní. Þær hafa oft ekki opnast fyrr en seint í júlímánuði. 

Tekið skal fram að flestir hálendisvegir teljast jeppavegir og margir eru aðeins færir öflugum jeppum.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×