Innlent

Vega­gerðin ræðst í úr­bætur á slysstað banaslyss

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Myndin er frá því í desember þegar grjót féll á veginn. Enginn slasaðist.
Myndin er frá því í desember þegar grjót féll á veginn. Enginn slasaðist. Aðsend

Vegagerðin hyggst setja upp svokallaðar grjótgrindur við Steinafjall þar sem banaslys varð í fyrra. Rannsóknarnefnd samgönguslysa óskaði eftir úrbætum í nýrri skýrslu.

Kona lést samstundis þann 31. mars í fyrra þegar gríðarstórt grjót losnaði úr Steinafjalli og féll ofan á þak bíls sem hún ók. Rannsóknarnefnd samgönguslysa birti í dag skýrslu um slysið þar sem kallað er eftir viðeigandi úrbætum til að bæta umferðaröryggi á svæðinu.

Íbúi á svæðinu segir það algengt að það hrynji úr skriðum Steinafjalls, sem er undir Eyjafjöllum. Síðast féll grjót á veginn á aðfangadag en engin slys urðu á fólki.

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir stofnunina nýbúna að fá grænt ljós á fjármögnun til að bæta umferðaröryggi á svæðinu

„Þetta hleypur á tugum milljóna króna. Við erum búin að hanna þetta og erum að skrifa útboðsgögn, það verður boðið út innan ekkert svo langs tíma,“ segir hann í samtali við fréttastofu.

Ætlunin er að setja upp svokallaðar grjótgrindur sem grípa grjótið, álíka varnir eru til að mynda á Vestfjörðum. Útboðið fari fram innan nokkurra vikna eða mánaða.

„Þetta hefur verið skoðað áður en það hefur ekki verið fjármagn til staðar fyrr en nú.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×