Um fjörutíu flóttamenn féllu þegar loftárás var gerð á fangabúðir þar sem þeir var haldið við Trípólí, höfuðborg Líbíu í gær. Flestir þeirra sem féllu eru taldir hafa verið Afríkubúar sem ætluðu að reyna að koma yfir Miðjarðarhaf til Evrópu.
Breska ríkisútvarpið BBC segir að um 120 manns hafi verið haldið í flugskýli sem sprengjum var varpað á í gærkvöldi. Auk þeirra látnu særðust um áttatíu manns, að sögn bráðabirgðaríkisstjórnar landsins sem Sameinuðu þjóðirnar styðja. Á meðal þeirra eru konur og börn.
Ríkisstjórnin telur að Líbíski þjóðarherinn (LNA) undir stjórn stríðsherrans Khalifa Haftar herforingja hafi staðið að loftárásinni. Skærur stóðu yfir á milli stjórnarhersins og hersveita LNA þegar sprengjunni var varpað á búðirnar. LNA tilkynnti á mánudag að hann myndi hefja harðar loftárásir á skotmörk í Trípólí.
Haftar sakar stjórnarherinn aftur á móti um að hafa sprengt upp fangabúðirnar. Herflugvélar þjóðarhersins hafi sprengt upp búðir stjórnarhersins. Stjórnarherinn hafi svarað með sprengikúlum og hafi óvart hæft fangabúðirnar.
Tugir flóttamanna féllu í loftárás á fangabúðir í Líbíu
Kjartan Kjartansson skrifar
