Skoðun

Framtíð fjölmiðlunar

Lilja Alfreðsdóttir skrifar
Í haust mun ég mæla fyrir frumvarpi um breytingu á fjölmiðlalögum. Það frumvarp markar tímamót fyrir einkarekna fjölmiðla hér á landi sem með því geta fengið opinberan fjárstuðning vegna öflunar og miðlunar frétta og fréttatengds efnis. Ljóst er að síðustu ár hafa rekstrarforsendur einkarekinna fjölmiðla hér á landi versnað til muna. Margar ástæður eru fyrir þeirri þróun svo sem örar tæknibreytingar og minnkandi auglýsingatekjur fjölmiðla samhliða breyttri neysluhegðun. Fjölmiðlafrumvarpið gerir ráð fyrir tvíþættum stuðningi til þess að mæta þeirri þróun en með frumvarpinu er leitast við að Ísland skipi sér í hóp hinna Norðurlandanna og fleiri ríkja í Evrópu sem þegar styrkja einkarekna fjölmiðla.

Fjölmiðlar gegna þýðingarmiklu hlutverki við miðlun upplýsinga og sem vettvangur umræðu og skoðanaskipta. Markmið þessarar aðgerðar er þannig bæði að efla fjölmiðlun hér á landi vegna mikilvægis hennar fyrir þróun lýðræðis í landinu og þróun tungumálsins. Fjölmiðlar eru lykilþátttakendur í því sameiginlega hagsmunamáli okkar að efla íslenskuna og fá fólk til að fylgjast með samfélagsumræðu á sínu eigin tungumáli. Íslenskt efni í fjölmiðlum, hvort heldur frumsamið, þýtt, textað, táknmálstúlkað eða talsett, skiptir höfuðmáli til að viðhalda tungumálinu.

Við viljum skapa frjóan jarðveg fyrir fjölbreytta flóru fjölmiðla hér á landi. Fjölmiðlafrumvarpið byggir á ítarlegri undirbúningsvinnu og var unnið með aðkomu margra sérfræðinga, fulltrúa hagsmunaaðila og annarra flokka. Með nýjum lögum verður til styrkjakerfi sem verður einfalt og fyrirsjáanlegt. Ávinningur þess verður einnig styrkari ritstjórnir og aukið gagnsæi á fjölmiðlamarkaði. Við lifum á spennandi tímum sem einkennast af örum breytingum. Fjölmiðlar verða að hafa tækifæri til þess að mæta þeim breytingum og þróast með þeim. Nýtt fjölmiðlafrumvarp styður við grundvallarstarfsemi þeirra, öflun og miðlun vandaðra frétta og fréttatengds efnis.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×