Innlent

Sveitarstjóri segir starfsmanni hafa orðið fótaskortur á tungunni

Pálmi Kormákur skrifar
Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings.
Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings. Fréttablaðið/Auðunn
„Ég harma það að þessum ágæta starfsmanni hafi orðið fótaskortur á tungunni. Við munum fara yfir það betur hvernig á að svara íbúum, en þetta eru þó mistök sem allir geta gert og ég veit að hann sér mjög eftir því hvernig hann svaraði þessu,“ segir Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings vegna ummæla framkvæmda- og þjónustufulltrúa sveitarfélagsins sem féllu í Fréttablaðinu á mánudag.

Í fréttinni vaf fjallað um uppþornandi tjarnir á Raufarhöfn og gerði starfsmaðurinn lítið úr áhyggjum íbúa á Raufarhöfn af málinu.

Ummælin hafa vakið reiði meðal bæjarbúa sem í Facebook-hópi íbúa hafa sagt ummælin vera hrokafull, kaldhæðin og lítillækkandi.

Um ástand tjarnanna segir Kristján engan hafa séð uppþornun þeirra fyrir.

„Það mun enginn líða að það verði einhverjar varanlegar afleiðingar fyrir þessar tjarnir. Verkefnið var jákvætt þegar farið var af stað með það og lengi hafði verið beðið eftir því, enda verkefni sem á bara að hafa jákvæð áhrif á bæinn,“ segir Kristján.

Gunnar Hrafn hefur beðist afsökunar á ummælum sínum á Face­book-síðu sveitarstjórnarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×