Lögreglan í Hong Kong rýmdi þinghúsið eftir að mótmælendur brutu sér leið inn í aðalsal þingsins og unnu skemmdarverk. Óeirðalögregla beitti kylfum og táragasi til að rýma svæðið í kringum bygginguna eftir að hafa varað mótmælendur við. Fréttastofa BBC greindi frá þessu.
Í kjölfarið fóru mótmælendur að yfirgefa þinghúsið og voru sumir þeirra dregnir út gegn vilja sínum af öðrum mótmælendum.
Innan við klukkutíma síðar sást enginn á götunum í kringum þinghúsið, fyrir utan lögreglulið og fjölmiðlafólk. Ekki hefur enn verið tilkynnt um neinar handtökur lögreglu á mótmælendum.
Hundruðir mótmælenda streymdu inn í þinghúsið fyrr í dag og ollu eyðileggingu. Einn mótmælendanna er meðal annars sagður hafa spreyjað svartri málningu á táknmynd Hong Kong í þingsalnum. Annar hafi haldið gamla breska nýlendufánanum á lofti. Rúður voru einnig brotnar.
Átökin brutust út í kjölfar friðsamra mótmæla í dag í tilefni af því að tuttugu og tvö ár eru liðin frá því að bresk stjórnvöld skiluðu Hong Kong í hendur Kína. Mótmælin undanfarið hafa beinst að framsalslögum sem hefðu heimilað að Hong Kong-búar væru framseldir til meginlandsins.
Carrie Lam, leiðtogi Hong Kong hefur fordæmt þá mótmælendur sem brutust inn í þingið og unnið skemmdarverk.
