Enski boltinn

Franskur sóknarmaður að verða dýrasti leikmaður í sögu West Ham

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Sebastian Haller og Luka Jovic. Rándýrt framherjapar.
Sebastian Haller og Luka Jovic. Rándýrt framherjapar. vísir/getty
Þýska úrvalsdeildarliðið Eintracht Frankfurt hefur staðfest að hafa samþykkt kauptilboð enska úrvalsdeildarliðsins West Ham United í franska sóknarmanninn Sebastian Haller.

Enskir fjölmiðlar segja kaupverðið vera 45 milljónir punda sem myndi gera Haller að dýrasta leikmanni í sögu West Ham en fyrir sléttu ári síðan keypti Lundúnarliðið Felipe Anderson frá Lazio á 36 milljónir punda.

Haller skoraði 14 mörk í þýsku Bundesligunni á síðustu leiktíð en þessi 25 ára gamli sóknarmaður á landsleiki að baki fyrir öll yngri landslið Frakklands. 

Honum er ætlað að fylla skarð Marko Arnautovic sem yfirgaf West Ham á dögunum og færði sig um set til Kína.

West Ham hefur látið til sín taka á leikmannamarkaðnum í sumar en spænska ungstirnið Pablo Fornals var keyptur til liðsins fyrir 24 milljónir punda frá Villarreal á dögunum.

Haller er annar sóknarmaðurinn til að yfirgefa Frankfurt í sumar fyrir himinháa upphæð en fyrr í sumar keypti Real Madrid Luka Jovic frá Frankfurt fyrir 60 milljónir evra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×